Hefurðu einhverjar spurningar um þjónustu eða vörur Vodafone? Hér finnur þú svörin við flestum þeim algengustu.

Reikningar

Allt sem tengist reikningum: Inniheimtuferli, reikningstímabil, útskriftargjald, greiðslufrestur og fleira.

 

Í netverslun okkar geturðu á einfaldan hátt leitað eftir tegund, verði eða eiginleikum símtækja og þannig fundið rétta símann sem hentar þér.

Við erum með eitt mesta úrval landsins. Kíktu líka við í verslunum okkar.

Páll Ásgrímsson ráðinn aðallögfræðingur Vodafone

Páll Ásgrímsson, héraðsdómslögmaður, hefur verið ráðinn aðallögfræðingur Vodafone. Hann mun hefja störf hjá fyrirtækinu á næstu vikum.

Pall_AsgrimssonPáll er reynslumikill lögmaður á sviði félagaréttar, auk þess að hafa sérhæft sig á sviði fjarskipta- upplýsingatækni- og samkeppnisréttar. Páll hefur frá árinu 2011 verið einn af eigendum lögfræðistofunnar Juris, en áður starfaði hann um langt árabil sem forstöðumaður og síðar framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Símans og síðar Skipta. Hann var lögfræðingur EFTA skrifstofunnar og Eftirlitsstofnunar EFTA á árunum 1995 til 1999 og yfirlögfræðingur Samkeppnisstofnunar frá 1994 til 1995. Hann hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja, t.d. Símans hf., Mílu ehf., FARICE hf. og Skjásins ehf.

Páll mun heyra beint undir forstjóra Vodafone og hafa yfirumsjón með öllum lögfræðilegum málefnum félagsins. Hann mun hefja störf hjá fyrirtækinu á næstu vikum.

Stefán Sigurðsson, forstjóri:
„Það er mikill fengur í Páli Ásgrímssyni fyrir Vodafone. Hann býr yfir mikilli þekkingu og reynslu sem mun nýtast okkur vel í rekstri og uppbyggingu fyrirtækisins á næstu árum.“

Ekki láta farsímaþjóf stela fjölskyldumyndunum

Það er ekkert grín að tapa farsímanum sínum, enda felst tapið ekki einungis í símtækinu heldur líka í gögnunum. En til er fjöldi appa sem hjálpa þér við að tryggja öryggi gagnanna ef eitthvað kemur upp á.

Stolen-phoneÞað getur verið afar súrt að tapa farsímanum sínum en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ræddi farsímaþjófnað á Facebook-síðu sinni á dögunum þar sem kom m.a. fram að hátt í 20 farsímum hafi verið stolið á skemmtistöðum bæjarins á einni helgi. En tapið liggur ekki einungis í dýrum símum sem glatast heldur ekki síður í gögnunum sem þeir geyma.

Með einföldum fyrirbyggjandi aðgerðum má hins vegar hindra að dýrmæt gögn, eins og myndir, símanúmer og skjöl, komist í rangar hendur og jafnvel tapist fyrir fullt og allt.

Læstu símanum
Mikilvægt er að setja talnalás á farsíma, þ.e. talnarunu sem slegin er inn í hvert sinn sem síminn er notaður. Talnarunan þarf að vera nógu auðveld svo notandi geti munað hana, en nógu flókin til að óprúttinn aðili nái ekki að giska á hana. Hægt er að virkja lásinn í nær öllum símum undir valmöguleikanum Stillingar eða Settings.

Nánari leiðbeiningar um uppsetningu öruggra lykilorða má t.d. finna hér fyrir Windows Phone 8, iOS í iPhone og Android frá Google.

protect_appForrit til að finna týnda síma
Þótt síma sé stolið eða hann týnist er hægt að beita ýmsum ráðum til að hafa upp á honum.

Fyrir Android mælum við t.d. með Vodafone Protect-appinu, sem býðst öllum viðskiptavinum Vodafone með farsíma í áskrift. Appið hjálpar þér að finna símann ef hann týnist, læsa honum og eyða öllum gögnum af honum ef þörf krefur. Líka er hægt að nota það til að fá vírusvörn í símann.

Fleiri leiðir eru einnig færar til að finna týnda síma. Með Find My iPhone geta eigendur iPhone-síma bæði fundið tapaða síma og eytt úr þeim gögnum svo óprúttnir geti ekki nálgast þau. Eigendur Android-síma geta nálgast gögn sín eða hluta þeirra í gegnum Android Device Manager á vef Google. Geta þeir notað forritið til að finna símann og fjarstýra honum auk þess að læsa honum í gegnum netið og eyða gögnum. Þeir sem eiga síma sem keyra á Windows-stýrikerfinu geta farið svipaða leið í gegnum My Phone-hluta Windowsphone.com.

contacts_appSímanúmerin
Það er liðin tíð að fólk muni símanúmer vina og vandamanna heldur vistar það þau orðið jafnóðum í farsímana. Vodafone Contacts–appið er í boði fyrir alla viðskiptavini Vodafone með farsíma í áskrift. Með appinu, sem er í boði fyrir Android og iOS, heldur þú utan um alla tengiliði í símanum, tekur öryggisafrit, getur flutt tengiliðina á einfaldan hátt milli síma og margt fleira.

Myndir og mikilvæg gögn
Flestir nota orðið farsímana sína eins og myndavélar og eiga þar vænt myndasafn. Það er því líkast stórslysi þegar símanum er stolið eða hann týnist og öll gögnin hverfa með honum.

cloud_appLítið mál er að koma í veg fyrir slíkt með því að vista myndir og önnur gögn með miðlægum hætti, t.d. í Vodafone Cloud–appinu, sem er til fyrir bæði Android og iOS (Windows Phone er á leiðinni). Vodafone Cloud gefur þér aðgang að gagnageymslu þar sem hægt er að vista sjálfvirkt öryggisafrit af mikilvægum gögnum af símanum. Appið fylgir öllum farsímaáskriftum Vodafone og er geymsluplássið mismunandi mikið eftir áskriftarleiðum.

Gögnin sem vistuð eru með Vodafone Cloud má síðan nálgast á spjaldtölvunni eða í tölvunni, auk þess sem setja má upp sérstakt forrit í tölvuna (bæði Windows og Mac) til að halda utan um gögnin.

Viltu vita meira? Hér er ítarlegri umfjöllun um Vodafone öppin, sem öll eru hönnuð af Vodafone samsteypunni og notuð um allan heim. Hér má svo lesa meira um Vodafone RED og RED Frelsi.

80 sjónvarpsstöðvar í boði Skjásins til 15. október

Skjárinn býður viðskiptavinum Vodafone upp á sannkallaðan sjónvarpsmánuð, því til 15. október geta þeir sem eru með Vodafone Sjónvarp um nettengingu fengið aðgang að öllum erlendum sjónvarpsstöðvum SkjásHeims, án allra skuldbindinga.

skjarheimurUm er að ræða hátt í 80 sjónvarpsstöðvar víðs vegar úr heiminum. Í fjölbreyttu úrvali sjónvarpsstöðva SkjásHeims má finna fjölda norrænna og evrópskra sjónvarpsstöðva í bland við klassískar kvikmyndarásir, ýmiss konar fræðsluefni, íþróttir og annað afþreyingarefni. Það er því sama hvert áhugasviðið er, allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Ef þú ert með Vodafone Sjónvarp um ljósleiðara, ljósnet eða ADSL getur þú skráð þig fyrir gjöfinni á vef Skjásins. Í því felst engin skuldbinding, áskriftin hættir sjálfkrafa eftir 15. október.

Hægt er að kynna sér hvaða stöðvar eru innifaldar í SkjáHeimi og hvernig einstakir stöðvapakkar eru uppsettir vef SkjásHeims.

Dagur rauða nefsins hjá Vodafone

Föstudagurinn 12. september er dagur rauða nefsins á Íslandi í ár. Skemmti- og söfnunarþáttur verður sendur út frá höfuðstöðvum Vodafone í Skútuvogi.

dagur_rauda-nefsins-skutuvoMarkmiðið með degi rauða nefsins er að vekja athygli á mannréttindum barna um allan heim og hvetja fólk til að ganga í lið með heimsforeldrum UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Dagurinn nær hámarki með öflugum skemmti- og söfnunarþætti á RÚV, strax að loknum kvöldfréttum. Vodafone lánar þar símaver og mannskap í söfnunina en þetta er í sjötta skipti sem fyrirtækið tekur þátt í átakinu.

Í þættinum kennir ýmissa grasa; fjöldinn allur af listamönnum stígur á stokk, jafnt tónlistarmenn sem og uppistandarar, sem allir gefa vinnu sína. Spiluð verða innslög frá ferð leikarans og heimsforeldrisins Ólafs Darra Ólafssonar til Madagaskar, þar sem hann kynnti sér starf UNICEF með eigin augum, Hraðfrétta-menn, Pollapönkarar og Reykjavíkurdætur bregða á leik og margt fleira.

Það er því um að gera að fylgjast vel með á RÚV á föstudagskvöldið – strax að loknum fréttum kl. 19:35 – og leggja góðu málefni lið.

Rafræn skilríki í farsímann

Nú geta viðskiptavinir Vodafone fengið ný SIM kort í símtækin sín, sem gera þeim kleift að auðkenna sig rafrænt.

rafraen-skilriki-banner

 

Með rafrænum skilríkjum í símanum má auðkenna sig á öruggan hátt á netinu og staðfesta skjöl með rafrænum hætti, í stað þess að undirrita þau upp á gamla mátann.

Einfaldast er að óska eftir því að fá nýtt SIM kort sent heim. Hér má óska eftir því og lesa frekari upplýsingar um nýju SIM kortin. Þegar nýtt SIM kort hefur verið sett í símann þarf að fara á skráningarstöðvar á vegum Auðkennis til að virkja sjálf rafrænu skilríkin.

Nýtist til rafrænna samskipta við fjölda fyrirtækja og stofnana

Rafræn skilríki má t.d. nota til innskráningar á vefi fyrirtækja og stofnana og til rafrænnar undirritunar á skjölum. Það getur sparað fólki verulega sporin við ýmis samskipti, t.d. við opinberar stofnanir, banka og önnur fyrirtæki. Einnig hefur talsverð umræða verið um rafræn skilríki að undanförnu í tengslum við skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar, en gerð er krafa um að rafræn skilríki verði notuð við samþykki leiðréttingarinnar.

Viðskiptavinir þurfa ekki að greiða fyrir nýja SIM-kortið og fram til áramóta verður þjónustan gjaldfrjáls.

Við hvetjum viðskiptavini til að kynna sér málið og taka virkan þátt í þeirri merkilegu þróun sem nú er komin á fullt!

4G í Reykjanesbæ

Íbúar í Keflavík, Njarðvík og nágrenni og þeir sem eiga leið um svæðið geta nú nýtt sér 4G háhraða netsamband Vodafone en stór hluti Reykjanesbæjar bættist á dögunum við ört stækkandi 4G þjónustusvæði fyrirtækisins.

reykjanesbaer-frettamynd

Varanlegur 4G sendir hefur verið settur upp við Eyjavelli sem nær til stórs hluta Suðurnesja og bjóðum við því íbúa Keflavíkur, Njarðvíkur og nágrennis velkomna á 4G þjónustusvæði Vodafone.

Flutningshraði 4G tengingar er umtalsvert meiri en 3G og jafnast á við góða heimanettengingu. Með 4G má sem dæmi með auðveldum hætti fylgjast með beinum sjónvarpsútsendingum á spjaldtölvum eða í snjallsímanum, fylgjast með fréttum og veðurspá eða streyma tónlist og myndefni greiðlega. Allt sem þarf er 4G sími eða netbúnaður sem getur tengt eitt eða fleiri tæki við 4G netið.

Vodafone4G-Sudurnes-kort

4G þjónustusvæði Vodafone á suðvesturhorni landsins eftir að nýr sendir var tekinn í notkun í Reykjanesbæ.

 

Það ætti því enginn ætti að þurfa vera netsambandslaus á ferðum sínum um rokkbæinn.

Ör uppbygging 4G

Uppbygging 4G þjónustusvæðis Vodafone hefur verið hröð frá því kerfið var gangsett. Byrjað var að innleiða tæknina á helstu sumarhúsabyggðum á Suður- og Vesturlandi og í kjölfarið bættist Eyjafjörður við. Á þessu ári hafa fleiri þéttbýlisstaðir á Norðurlandi fengið 4G tengingu auk Akraness, Egilsstaða, Vestmannaeyja, höfuðborgarsvæðisins og nú Suðurnesja.

Við bjóðum Suðurnesjamenn velkomna í hópinn!

Tæknimenn Vodafone að störfum við uppsetningu 4G sendis í Reykjanesbæ.

Tæknimenn Vodafone að störfum við uppsetningu 4G sendis í Reykjanesbæ.

 

Vodafone skipar tilnefningarnefnd fyrst fyrirtækja á markaði

Stjórn Vodafone (Fjarskipta hf.) hefur samþykkt að komið verði á fót svokallaðri tilnefningarnefnd og starfsreglum fyrir hana. Vodafone er fyrst skráðra félaga á hlutabréfamarkaði hérlendis til að skipa slíka nefnd.

Tilgangurinn með myndun tilnefningarnefndar er að að stuðla að aukinni fagmennsku, gagnsæi og skilvirkni við myndun stjórnar Fjarskipta hf. hverju sinni. Skipan nefndarinnar er í samræmi við leiðbeiningar Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq OMX Iceland hf. og Samtaka atvinnulífsins, um stjórnarhætti fyrirtækja, frá árinu 2012 og leiðbeiningar OECD frá árinu 1999.

Hlutverk nefndarinnar er að tilnefna frambjóðendur til stjórnarsetu í félaginu fyrir aðalfund þess. Við vinnu sína skal nefndin taka mið af heildarhagsmunum hluthafa. Á meðal verkefna nefndarmanna er; að meta hæfni, reynslu og þekkingu tilvonandi kandídata til stjórnarsetu, óhæði þeirra, gæta að kynjahlutföllum í stjórn, upplýsa nýja stjórnarmenn um ábyrgð fylgjandi stjórnarsetu í félaginu og sjá til þess að hluthöfum berist upplýsingar um stjórnarmenn.

Stjórn félagsins hefur samþykkt tillögu um að þrír aðilar skipi tilnefningarnefndina og meirihluti hennar sé óháður Fjarskiptum hf. og daglegum stjórnendum félagsins. Ásdís Jónsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu háskóla og vísinda í Menntamálaráðneytinu, og Ragnheiður Dagsdóttir, meðeigandi og sérfræðingur í ráðningum hjá Capacent, taka sæti í nefndinni, ásamt Heiðari Guðjónssyni, stjórnarformanni félagsins.

Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Vodafone:
„Stjórn Fjarskipta er einhuga um að stuðla að ábyrgum stjórnarháttum við rekstur fyrirtækisins og tileinka sér viðmið sem hafa gefist vel á alþjóðavettvangi og eiga fullt erindi hér á landi. Við erum þess fullviss að skipan tilnefningarnefndar sé jákvætt skref fyrir Vodafone og ég hlakka til að starfa með nefndarmönnum.“

Gagnasendingar 24-földuðust á Menningarnótt

Það er óhætt að segja að helgin hafi verið stór á höfuðborgarsvæðinu – bæði Menningarnótt og Justin Timberlake. Gestir á báðum viðburðunum notuðu snjallsímana óspart til að deila upplifuninni.

timberlake-featuredÍslendingar tóku JTv sjónvarpsstöð Vodafone og merkinu #JTKorinn opnum örmum um helgina. Miklum fjölda tísta og Instagram mynda var deilt í gegnum stöðina fyrir, á meðan og eftir að Justin Timberlake lék listir sínar í Kórnum á sunnudagskvöld. Alls voru yfir 5.000 myndir merktar #JTKorinn birtar á Instagram í síðustu viku.

Upplifuninni deilt í Kórnum
Gestir voru iðnir við að deila upplifun sinni á tónleikum Timberlake á sunnudagskvöld. Var tíst, snappað og instagrammað sem enginn væri morgundagurinn. Víða hafði líka verið stillt á JTv í upphitunarpartýum en stöðin var auk þess höfð uppi við á skjám á veitingasvæðum í Kórnum og jók þannig enn á stemmninguna.

Vodafone hafði fjölgað sendum á svæðinu umtalsvert fyrir tónleikana, til að tryggja sem best samband. Voru engir hnökrar á því og nýttu viðskiptavinir Vodafone gott gagnasamband til hins ítrasta til að deila upplifuninni af tónleikunum.

Eins og sjá má af grafinu hér fyrir neðan jókst gagnanotkun snjallsímanna í Kórnum jafnt og þétt frá kl. 19, en minnkaði svo eftir kl. 21, þegar tónleikarnir hófust og gestir einbeittu sér að því að fylgjast með listamanninum.

simnotkun-justin2

Símnotkun í Kórnum á tónleikum Justin Timberlake. Rauða lína er gagnanotkun en græna línan er hefðbundin símtöl.

Ein stór undantekning er hins vegar um kl. 21:45, þegar gagnaumferðin tók kipp og náði hápunkti. Líklegt er að það hafi verið um það leyti þegar Timberlake flutti lagið Until the end of time en þá bað hann alla í salnum um að setja síma sína á loft og brugðust gestir ekki kallinu.

Á grafinu sést einnig hvernig snarlega dró úr talumferð í Kórnum um leið og kappinn steig á svið kl. 21 og náði talið ekki aftur fyrri hæðum fyrr en að tónleikunum loknum, þegar tími var til að halda heim.

flugeldasyningGestir bergnumdir á Töfrum
Mikill mannfjöldi fylgdist með þegar flugeldasýningin „Töfrar“ sló botninn í Menningarnótt í miðborginni á laugardagskvöld. Talið er að um 100 þúsund gestir hafi sótt miðborgina heim á deginum. Líkt og í fyrra var listræn stjórnun viðburðarins í höndum danshöfundarins Siggu Soffíu og sýningin í boði Vodafone. Verður ekki annað sagt en að verkið hafi verið mikið sjónarspil, þar sem gestir upplifðu samspil flugelda, hljómsveitar og kirkjuklukkna.

Af talumferð á svæðinu má sjá að hún jókst jafnt og þétt frá kl. 22:00 og tók kipp um það leyti sem hljómsveitin Nýdönsk lauk leik um kl. 22:45. Snarlega dró úr símnotkuninni um leið og klukkan sló 23 og fyrstu flugeldarnir hófu sig á loft. Náði umferð síðan fullum krafti á ný um leið og síðustu sprengjurnar ómuðu en minnkaði svo jafnt og þétt eftir því sem fólkið streymdi úr miðbænum eftir hátíðahöldin.

simnotkun-talumferd-midbae2

Símtöl í miðbæ Reykjavíkur á Menningarnótt.

Gagnanotkun í miðbænum á Menningarnótt var jafnframt margföld á við það sem gengur og gerist að jafnaði, enda varla við öðru að búast þegar svo margir koma saman og vilja fylgjast með og deila upplifun sinni á samfélagsmiðlum. Eins og sjá má af grafinu hér fyrir neðan varð alger sprenging í gagnanotkun á laugardeginum, bæði í niðurhali og upphali, sem náði hámarki um það leyti sem flugeldasýningin fór fram en minnkaði hratt eftir það.

simnotkun-gogn-midbae2

Gagnanotkun í farsímakerfinu í miðbæ Reykjavíkur 22.-24 ágúst 2014. Rauða línan er niðurhal en sú græna er upphal.

Tölur Vodafone sýna að niðurhal í farsímakerfinu nær tífaldaðist þegar borið er saman tímabilið 20:00 til 00:00 föstudaginn 22. 8. og laugardaginn 23.8. Miklu meiri munur er hins vegar á upphali, því það ríflega 24-faldaðist á þessum tíma! Það er því ljóst að gestir Menningarnætur voru duglegir við að taka myndir og deila upplifun sinni á samfélagsmiðlum.

Hér fyrir neðan má sjá stutt samantektarmyndband frá sjónvarpsstöðinni JTv sem sýnir stemmninguna fyrir tónleika Justin Timberlake. Við hjá Vodafone þökkum fyrir samveruna um helgina og vonum að þið hafið haft jafn gaman af þessum tveimur mögnuðu viðburðum og við!

Á Vodafone blogginu birtum við fréttir af ýmsu sem tengist starfsemi, vörum og þjónustu Vodafone. Við leggjum okkur að sjálfsögðu fram um að upplýsingar sem hér birtast séu réttar, en alltaf geta einhverjar villur slæðst með sem við leiðréttum ef þær finnast. Eðli bloggsins vegna má búast við að upplýsingar sem hér birtast geti úrelst með tímanum.

Copyright © Vodafone    Skútuvogi 2    104 Reykjavík    Sími 599 9000    Fax 599 9001    Þjónustuver sími 1414    Hafðu samband    Skilmálar þjónustu

Netspjall / Panta símtal / Fyrirspurn